Færslur: 2009 Nóvember

24.11.2009 11:41

Yfirlýsing frá Starfsmannafélagi Fjarðabyggðar vegna ákvörðunar um lokun starfstöðvar í Neskaupstað

Ályktun félagsins má nálgast í word formi inn á \files\Ályktanir\Alyktun STAF-2.docx


Stjórn Starfsmannafélags Fjarðabyggðar lýsir undrun og hryggð yfir þeirri ákvörðun stjórnenda Fjarðabyggðar að leggja niður og loka starfstöð sveitarfélagsins að Hafnarbraut 2 í Neskaupstað og flytja starfsemina á Reyðarfjörð. 

Starfsmannafélagið mótmælir þeirri ákvörðun  að skylda núverandi  starfsmenn  í Neskaupstað til að aka daglega á Reyðarfjörð um 80 km vegalengd til og frá vinnu ella hætta að öðrum kosti uni starfsmenn ekki breyttum aðstæðum.

Starfsmannafélagið minnir á að flestir starfsmennirnir eru konur og sumar ungar mæður með börn í skóla og leikskóla sem verður ekki svo auðveldlega sinnt frá Reyðarfirði. 

Að mati Starfsmannafélagsins lýsir þessi ákvörðun mikilli lítilsvirðingu á starfi og starfsaðstöðu kvenna og er það undrunarefni m.v.  hvernig forysta sveitarfélagsins er skipuð.

Starfsmannafélagið mótmælir því að nota það sem ástæðu að í miklum vatnsveðrum leki vatn á einum stað svo það þurfi að færa til skrifborð. Ekki hefur verið í umræðunni að loka skrifstofunni á Reyðarfirði þó starfsmenn þar hafi þurft ítrekað að flytja til skrifborð og tæki vegna leka á nokkrum stöðum í því húsnæði sem er þó nýbyggt.

Starfsmannafélagið bendir á að í Neskaupstað býr um þriðjungur íbúa í Fjarðabyggð og þeir eiga skýlausan rétt á að í bænum sé staður þar sem íbúarnir geti sótt  þjónustu og upplýsingar sem þeir þurfa sem er meira en  bara að sækja eyðublöð.

Starfsmannafélaginu er alveg ljóst að  það þarf að leita allra leiða til hagræðingar í rekstri sveitarfélagsins og þar hafa starfsmenn Fjarðabyggðar sannarlega tekið á sig verulega lækkun launa svo nemur tugum prósenta. Starfsmannafélagið dregur í efa að þessi  aðgerð spari þær milljónir sem rætt er um.

Í allri umræðunni við sameiningu Neskaupstaðar,  Eskifjarðar og Reyðarfjarðar gerðu Norðfirðingar sér  ljóst að breyting yrði á skrifstofuhaldi í nýju sveitarfélagi , en á meðan ekki væru komin ný göng á milli Neskaupstaðar og Eskifjarðar yrði skrifstofuhald í Neskaupstað. Þessu mega núverandi stjórnendur ekki gleyma.

Starfsmannafélagið gerir þá kröfu að fallið verði frá áformum um lokun starfsstöðvarinnar í Neskaupstað.

                                                                       

 

 

Neskaupstað 24.nóvember 2009

                                                                        Stjórn Starfsmannafélags Fjarðabyggðar

 

 

Meðfylgjandi er úrdráttur úr fundargerð Launanefndar sveitarfélaga og Samflots bæjarstarfsmanna-félaga sem styður málflutning Starfsmannafélagsins Fjarðabyggðar.

 


 Fundargerð samstarfsnefndar

Samflots bæjarstarfsmannafélaga

og

Launanefndar sveitarfélaga

31. fundur

Fundur var haldinn í samstarfsnefnd LN og Samflots bæjarstarfsmannafélaga þann 28. september 2009 að Borgartúni 30, Reykjavík, og hófst hann kl. 11:00.

 

 

 

5.                  Önnur mál

Fulltrúar Samflots óskuðu að eftirfarandi yrði bókað í fundargerð:

Samflot bæjarstarfsmannafélaga vill beina þeim tilmælum til sveitarstjórnarmanna að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að þjónusta sveitarfélaganna verði skert á þeim samdráttartímum sem framundan eru. Nærþjónustan við fólkið er alltaf mikilvæg en aldrei sem á tímum erfiðleika. Starfsmenn sveitarfélaga gegna þar lykilhlutverki.

Í því vandasama hlutverki sem sveitarstjórnarmenn eru að glíma við er mikilvægt að hafa í huga að allar ákvarðanir þurfa að vera gagnsæjar og hafnar yfir ágreining og að starfsstéttum sé ekki mismunað ef til uppsagna kemur.

 

Varað er við niðurskurði í starfsmannamálum til að bæta fjárhagsstöðu sveitarfélaganna því minni almannaþjónusta kallar á aðrar lausnir sem geta orðið dýrari þegar upp er staðið. Það gleymist oft að líta á almannaþjónustuna sem mikilvægan hlekk í atvinnulífinu sem skilar þjóðfélaginu miklum arði.

 

 


  • 1
Flettingar í dag: 74
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 62
Gestir í gær: 19
Samtals flettingar: 230432
Samtals gestir: 51264
Tölur uppfærðar: 20.10.2019 18:48:15

Nafn:

Starfsmannafélag Fjarðabyggðar

Farsími:

8939105/8975639

Kennitala:

451275-1519

Bankanúmer:

1106-18-910090
clockhere

Tenglar